Ærslabelgurinn í Hveragerði er ónýtur eftir slæma meðferð en margir hafa hjólað á dýnunni og á henni eru skransför eftir vespu eða hlaupahjól.
Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar, segir að fjárhagslegt tjón af þessu sé verulegt og ekki verði hægt að endurnýja belginn fyrr en á næsta ári.
„Það er dapurt að nokkrir aðilar stundi skemmdarverk sem hefur áhrif á okkur öll. Því þurfum við að minna hvort annað á að ganga vel um,“ segir Jóhanna sem brýnir fyrir foreldrum og forráðamönnum að ræða við börnin sín um mikilvægi þess að fara vel með leiktæki og aðrar eigur bæjarins.