Klukkan sjö í fyrramálið, þann 2. janúar, opnar nýtt bakarí á Selfossi, G.K. bakarí við Austurveg 31. Eigendur bakarísins eru þeir Guðmundur Helgi Harðarson, frá Haga í Grímsnesi og Kjartan Ásbjörnsson frá Selfossi.
Kjartan og Guðmundur kynntust á sínum tíma í Guðnabakaríi, þar sem Kjartan lærði hjá Óskari Andreasen, en síðan héldu þeir hvor í sína áttina. Kjartan hefur síðustu misseri unnið í bakaríinu hjá IKEA og Guðmundur hjá Brauð & co í miðbæ Reykjavíkur.
„Við höfðum velt því fyrir okkur áður að fara út í rekstur saman. Við höfðum þreifað á einhverjum tækifærum í Reykjavík en það var rosalega dýrt, það er dýrt að byrja frá grunni og það er dýrt að gera húsnæði að bakaríi. Ég ætlaði ekki að halda áfram í bransanum og ætlaði að róa á önnur mið þegar þetta tækifæri kom upp á borðið og það var eiginlega of gott til þess að sleppa því,“ segir Guðmundur.
Fólk getur hitt bakarann allan daginn
Valtýr Pálsson, sem á húsið, vissi að Kjartan hefði áhuga á að opna bakarí og setti sig í samband við hann.
„Ég fór og skoðaði og hringdi svo í Guðmund og spurði hvort hann vildi koma á rúntinn,“ segir Kjartan og hlær. „Bakaríið var auðvitað ekki í þessari mynd þegar við komum hérna fyrst inn, við vorum aðeins tvístígandi en svo fóru hlutirnir að rúlla,“ segir Kjartan en búið er að gera mjög miklar breytingar á húsnæðinu sem áður hýsti Guðnabakarí.
„Það var orðið löngu tímabært að gera eitthvað hérna inni og við ákváðum að opna rýmið mikið. Fólk mun geta hitt bakarann allan daginn, það verður ábyggilega dálítið skemmtileg upplifun fyrir marga. Pælingin er að þetta sé meira kaffihús, auðvitað verður allt klassíska bakkelsið í boði. Við ætlum að reyna að vera sterkir í smurðu brauði og svo verður heit súpa í hádeginu sem við gerum frá grunni. En við viljum líka að fólk geti sest hér niður og spjallað yfir kaffibolla og námsmenn geti setið hérna með tölvurnar sínar. Fólk á að geta átt náðuga stund hérna og fengið eitthvað gott að borða,“ segir Kjartan.
Lifandi vöruúrval og gæði beint frá bónda
„Þetta verður samkomustaður þar sem fólk getur komið saman og velt fyrir sér raunum heimsins án þess að þurfa að borga hálfan handlegg fyrir það. Við verðum með lifandi vöruúrval og með vorinu er draumurinn að geta verið með uppákomur hérna. Eitthvað skemmtilegt og spennandi sem fólk tengir kannski ekki við bakarísfílinginn,“ segir Guðmundur og bætir við að stefnan sé að tengja mikið við fólk sem er að framleiða góðar vörur í nágrenninu. Meðal annars verða þeir með álegg frá Korngrís í Laxárdal í Gnúpverjahreppi og í hillunum er verðlaunasmjör frá Ártanga í Grímsnesi.
Reynum að mæta eins seint og við getum
Að sögn Guðmundar og Kjartans gekk vel að ráða starfsfólki í bakaríið en þar verða tíu starfsmenn til að byrja með og enn er verið að leita að helgarstarfsfólki. Margir draga upp þá mynd af bakaríum að þar sé mest unnið á nóttunni en sú verður ekki raunin í G.K. bakaríi.
„Ég hef aldrei skilið af hverju þarf að fylla öll bakarí landsins af starfsfólki klukkan þrjú á nóttunni. Við ætlum að reyna að mæta eins seint og við getum og baka eins lítið og við komumst upp með í byrjun dags, til þess að geta bakað allan daginn svo fólk labbi hérna út með tiltölulega nýbakað bakkelsi allan daginn. Þá eru hillurnar ekki orðnar tómar í hádeginu eða þá að það þurfi að henda matvælum í lok dags, sem er þyngra en tárum taki,“ segir Guðmundur og bakararnir ætla að vera í góðu sambandi við neytendurna.
Viljum vita hvað fólkið í bænum er að gera
„Það er mér hjartans mál að byggja upp tengingu við neytandann og hann getur leitað til mín, hvort sem það er lof eða last eða ráðleggingar eða bara til þess að kjafta um veðrið. Mér finnst mikilvægt að kúnninn hafi möguleika á því að tala við mig, og einnig að ég hafi möguleika á því að tala við kúnnann og vita hvað hann er að hugsa, og vita hvað fólkið í bænum er að gera. Því okkur langar mikið til þess að vera partur af bæjarlífinu hér og hafa skemmtilegan anda í húsinu,“ segir Guðmundur og Kjartan bætir við að fólk þurfi ekki að óttast of háa verðlagningu.
„Við ætlum að vera sanngjarnir við alla, bæði kúnnan og sjálfa okkur. Við viljum að fólk geti komið hérna á hverjum einasta degi. Það á ekki að vera einhver munaður einu sinni í mánuði að koma í bakaríið. Við ætlum að lækka verðið – og afgreiðsluborðið,“ segir Kjartan léttur að lokum.