Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti samhljóða á fundi sínum í morgun að fresta afgreiðslu á umsókn Landsvirkjunar um framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá.
Þetta var gert í ljósi þess að nýjar upplýsingar varðandi ákveðna umhverfisþætti hafa verið að berast sveitarfélaginu, en fyrir fundinum í morgun lágu erindi frá Verndarsjóður villtra laxastofna og Veiðifélagi Þjórsár þar sem skorað er á sveitarstjórn að hafna beiðni um framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina.
Sveitarstjórn samþykkti að gefa umhverfisnefnd Rangárþings ytra kost á að fjalla um málið og í kjölfarið verði fjallað um framkvæmdaleyfið á aukafundi sveitarstjórnar þann 23. júní næstkomandi.
Í síðasta mánuði skiluðu Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur sameiginlegri greinargerð, þar sem lagt var til að framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni yrði samþykkt með ákveðnum skilyrðum. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps mun afgreiða framkvæmdaleyfið á fundi sínum í dag.