Nú fyrir jólin hélt söngkonan Írena Víglundsdóttir styrktartónleika á Hellu fyrir SOS barnaþorpin. Hún afhenti SOS ágóðann, 477.500 krónur, sem fer í endurbætur á niðurníddu barnaþorpi á Haítí.
Írena hafði samband við skrifstofu SOS Barnaþorpanna fyrr á árinu og nefndi áhuga sinn á að halda tónleika til styrktar samtökunum. Hún þekkir vel til samtakanna; er styrktarforeldri barns í barnaþorpi á Indlandi auk þess sem foreldrar hennar og amma hafa styrkt nokkur börn á vegum samtakanna í mörg ár.
Tónleikarnir kölluðust „Jólagjöfin“ og voru haldnir sunnudaginn 16. desember í menningarheimilinu á Hellu. Til stóð að halda eina tónleika en þegar uppselt varð á þá í forsölu ákvað Írena að halda aukatónleika síðar um daginn. Miðar á síðari tónleikana seldust einnig upp.
Auk miðasölunnar aflaði Írena styrkja hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þegar upp var staðið nam framlagið 477.500 krónum og vildi Írena að upphæðin færi í enduruppbyggingu SOS Barnaþorpsins í Santo (Port-au-Prince) á Haítí, en þorpið hefur mjög látið á sjá vegna álags eftir að börnum í þorpinu fjölgaði mjög í kjölfar jarðskjálftans í janúar 2010.
Ásamt Írenu komu fram á tónleikunum þau Ómar Diðriksson, Lilja Margrét Ómarsdóttir, Kristrún Hákonardóttir, Berglind Hákonardóttir, Andrea Hrund Bjarnadóttir, Guðgeir Óskar Ómarsson, Kristrún Steingrímsdóttir, Fríða Hansen, Heiðrún Huld Jónsdóttir, Rúnar Þór Guðmundsson og Gíslunn Hilmarsdóttir. Hljómsveitina skipuðu þeir Sigmar Pálmarsson, Þórir Ólafsson, Ólafur Þórðarson, Steinn Daði Gíslason og Ómar Diðriksson.