Afhentu ríkissáttasemjara bók um letina

Í vikunni afhenti Útgáfufélagið Sæmundur á Selfossi samningsaðilum í yfirstandandi kjaradeilum eintök af nýrri bók útgáfunnar, Réttinum til letinnar eftir 19. aldar sósíalistann Paul Lafargue.

Í tilkynningu frá Sæmundi segir að án þess að nokkur afstaða sé tekin í kjaradeilum þá sé mikilvægt að samningsaðilar þekki og skilji þau sjónarmið sem Lafargue setur fram í riti sínu. Þar deilir höfundur á langan vinnudag og almenna dýrkun á vinnunni. Hann rökstyður að með styttri vinnuviku megi auka framleiðni sem er aldrei nógsamlega brýnt fyrir hinum vinnuglöðu Íslendingum. En þetta 130 ára vakningarrit er einnig ádeila á sóun og græðgi iðnaðarsamfélagsins og á fullt erindi til okkar.

Rétturinn til letinnar var eitt af þekktari barátturitum verkalýðssinna Evrópu á 19. öld og hefur verið gefið víðsvegar um heiminn. Það hefur þó aldrei komið út á íslensku fyrr en nú að Guðmundur J. Guðmundsson sagnfræðingur réðist í þýðingu þess.

Það er von útgefenda að sjónarmið Lafargue megi verða til að opna augu Íslendinga fyrir þeim grundvallarsjónarmiðum að dagvinnustundir launafólks eigi að duga til sómarsamlegrar framfærslu.

Fyrri greinEnginn tekinn á nöglum
Næsta greinSamtímalistin og samfélagið