Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti í dag í ríkisstjórn áform um að koma á fót Þjóðgarðastofnun sem tæki við verkefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls auk annarra tiltekinna verkefna á sviði náttúruverndar á vegum Umhverfisstofnunar.
Markmiðið er að efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu þjóðgarða og friðlýstra svæða en um leið viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarðanna.
Þrjár opinberar stofnanir fara með umsjón með rekstri þjóðgarða, friðlýstra svæða og annarra náttúruverndarsvæða í landinu; Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun, en undir stofnunina heyrir Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og friðlýst svæði utan þjóðgarða. Veigamikil rök eru til þess að samþætta starfsemi þessara stofnana sem fást við sambærileg verkefni. Þar má nefna að málefni náttúruverndar verða sífellt mikilvægari, aukinn rekstur og starfsemi er á þessum svæðum og aukin krafa um þjónustu, ekki síst vegna mikils fjölda ferðamanna. Þannig hefur á örfáum árum orðið mikil breyting á þessum svæðum, gestafjöldi hefur margfaldast og mikil þörf er á styrkingu starfseminnar.
Gert er ráð fyrir að sameina verkefni sem m.a. tengjast hvers konar verndaraðgerðum, gerð stjórnunar- og verndaráætlana, stýringu ferðamanna, landvörslu, meðferð og útgáfu sérleyfa, veitingu þjónustu og innheimtu þjónustugjalda, uppbyggingu og rekstri innviða, framkvæmdum á verndarsvæðum og viðhaldi, framkvæmd friðlýsinga, leyfisveitingum og annarri stjórnsýslu.
Eins og áður sagði er gengið út frá því að viðhalda sjálfstæði í rekstri þjóðgarðanna, en jafnframt efla og styrkja sameiginlega starfsemi og stoðþjónustu. Gert er ráð fyrir að viðhalda því fyrirkomulagi sem verið hefur um tengsl Alþingis við Þjóðgarðinn á Þingvöllum og sérstöðu þjóðgarðsins, svo og þeirri valddreifingu sem felst í aðkomu sveitarfélaga í Vatnajökulsþjóðgarði. Jafnframt yrði leitast við að efla valddreifingu og aðkomu heimamanna að öðrum friðlýstum svæðum.
Áhersla er lögð á að með sameiningu verkefna er fyrst og fremst verið að styrkja faglegt starf og stoðþjónustu og því verður störfum sem lúta að þessum verkefnum ekki fækkað í tengslum við stofnun Þjóðgarðastofnunar.
Á næstu mánuðum verður unnið að gerð lagafrumvarps um nýja Þjóðgarðastofnun sem umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst leggja fram á vorþingi 2018. Frumvarpið verður unnið í nánu samstarfi við þær stofnanir sem um ræðir.