Heilbrigðisráðherra sendi sveitarstjórnum á Suðurlandi bréf í síðustu viku þar sem kynnt eru áform um að Heilbrigðisstofnun Suðurlands sameinist Heilbrigðisstofnunum Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.
Árið 2007 var landinu skipt í sjö heilbrigðisumdæmi og samkvæmt lögum þar að lútandi getur ráðherra, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga, ákveðið að sameina heilbrigðisstofnanir innan hvers umdæmis með reglugerð.
Markmiðið er að ein heilbrigðisstofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi og í bréfi ráðherrans segir að meginávinningur sameiningar sé talinn verða styrkari stjórn og aukið sjálfstæði stofnana, hagkvæmni og betri, öruggari og sveigjanlegri þjónusta við íbúana, ekki síst á jaðarbyggðum.
Nú er stefnt á að ljúka vinnu við sameiningar heilbrigðisstofnananna en á Suðurlandi er áformað að sameina Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnun Suðausturlands í Hornafirði.