Hreiðar Hermannsson, byggingameistari og framkvæmdastjóri Stracta construction ehf hefur bæði sótt um og fengið vilyrði fyrir lóðum undir byggingu heilsárshótela í nokkrum byggðarkjörnum og bæjum á Suðurlandi.
Lengst segir Hreiðar málið vera komið á Hellu þar sem hann hefur fengið úthlutað lóð í eigu sveitarfélagsins á bökkum Rangár, þar sem Hreiðar gerir ráð fyrir að reisa um 100 herbergja heilsárshótel, með veitinga- og fundarsölum.
„Þarna og víðar á Suðurlandi er verið að kortleggja markaðssetningu á slíku húsnæði þar sem tilgangurinn er að fá fólk til að gista þrjár til fimm nætur á staðnum,“ sagði Hreiðar í samtali við Sunnlenska. Hann hefur rætt við yfirvöld í nokkrum sveitarfélögum um álíka hótelbygginar, sem byggðar verða í grunninn til á kanadískum húseiningum sem hann keypti frá Reyðarfirði þar sem þær voru notaðar sem vinnubúðir hjá Fjarðaráli.
Búið er að láta arkítekta gera ýmsar útlitstillögur að hótelunum en gert er ráð fyrir að reistir verði um 3.000 til 3.500 fermetrar af einingum á hverjum stað. Áformar Hreiðar að setja þær upp í Mýrdal, á Hvolsvelli, Stokkseyri, Reykholti í Biskupstungum og í Hveragerði.
„Ætlunin er að ná að opna þrjú slík hótel fyrir sumarbyrjun,“ segir Hreiðar, sem er mjög bjartsýnn á framtíð ferðaþjónustunnar á Suðurlandi, enda segir hann einfalt fyrir ferðamenn að gista á Suðurlandi þótt þeir fari í heilsdagsskoðunarferðir út fyrir héraðið, svo sem í hvalaskoðun í Reykjavík og slíkt.