Lögreglustjórinn á Hvolsvelli boðaði oddvita og sveitarstjóra í Rangárvallasýslu til fundar fyrir helgi vegna mögulegra eldsumbrota í Bárðarbungu.
Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum lögreglunnar á Hvolsvelli og þar var farið var almennt yfir stöðu mála og það sem viðkemur almannavörnum á svæðinu.
Yfirvöld eru við öllu búin og til dæmis var tekin ákvörðun um að hefja þá þegar smölun afrétta sem að svæðinu liggja, ef eldgos hefst í Bárðarbungu. Ekki verður beðið eftir hugsanlegu öskufalli heldur verður öllu fé komið strax af afréttunum. Formönnum Fjallskilanefnda hefur verið gert viðvart um þetta.
Litlar líkur eru á því að hlaup úr jöklinum komi niður sunnan til, gjósi í bungunni, en almannavarnir eru við öllu búnar og var fundurinn haldinn til að allir séu samstilltir og með á nótum komi til náttúruhamfara í Vatnajökli.