Landeigendur jarðarinnar Kaldárholts afsöluðu sér varanlega jarðhitaréttindum á jörðinni með samningi við Hitaveitu Rangæinga árið 1998.
Þetta er niðurstaða Hæstaréttar frá í gær sem staðfesti þar með fyrri niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Landeigendur kröfðust þess að viðurkennt yrði að samningurinn hefði veitt Orkuveitu Reykjavíkur og Veitum tímabundinn rétt til að bora eftir heitu vatni á jörðinni og virkja þar og nýta jarðhita til 25 ára. Orkuveita Reykjavíkur tók yfir rekstur hitaveitunnar árið 2005 og þar með eignir hennar og skuldbindingar og er þar af leiðandi aðili málsins í dag. Auk þess vildu landeigendur að viðurkennd yrði greiðsluskylda vegna nýtingar á heitu vatni umframtiltekinn rúmmetrafjölda á ári á árunum 2012 til 2016.
Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að í samningnum hafi hvergi komið fram að ráðstöfunin væri tíma- eða magnbundin með einum eða öðrum hætti.