Ágóðinn af þemadögunum Þorpinu sem haldnir voru í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í vor var afhentur hjálparstarfi Rauða krossins í vikunni.
Þemadagarnir hafa verið haldnir síðan árið 2013 og hafa alltaf staðið undir sér fjárhagslega. Nemendur vinna að framleiðslu margskonar varnings, sem seldur var á síðasta degi Þorpsins.
Þetta vorið var hagnaðurinn af verkefninu 150 þúsund krónur og var ákveðið að láta þá peninga renna til hjálparstarfs í Úkraínu í gegnum starf Rauða krossins. Það voru síðan nemendur í 7. bekk sem fengu þann heiður að afhenda peningagjöfina til fulltrúa Rauða Krossins en við það tækifæri fengu nemendur að heyra um hjálparstarf Rauða krossins.