Ágreiningsefni vegna afleiðinga eldgosanna enn til staðar

„Það eru ýmis mál sem enn þarf að leysa úr,“ segir Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra.

Hann átti á þriðjudag fund með nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar um ýmis ófrágengin mál er hafa komið upp í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.

Nefndinni er ætlað að fjalla um mál sem ekki falla undir Viðlagatryggingu eða Bjargráðasjóð og eru að mati heimamanna á áhrifasvæði gosanna enn óleyst.

Sem dæmi má nefna að heimamenn telja sig hafa orðið fyrir nokkrum óbættum skaða, svo sem á veitukerfum. Viðlagatrygging hefur til að mynda ekki tekið þátt í kostnaði sem varð vegna hreinsunar og viðgerðum á fráveitulögnum á Hvolsvelli. Mikið af ösku fór þar í niðurföll og segir Ísólfur Gylfi það blasa við að ef ekki hefði verið ráðist í framkvæmdir strax við að hreinsa þær og laga hefðu skemmdir orðið meiri til lengri tíma litið. Kostaði það sveitarfélagið um fimm milljónir króna.

Þá segir Ísólfur Gylfi það ekkert launungarmál að í kjölfar eldgosanna jókst eftirspurn eftir plássi í Hjúkrunar- og Dvalarheimilinu Kirkjuhvoli. Íbúar á gossvæðum sem höfðu búið langt fram á efri ár í eigin húsnæði sæki nú í að komast þar að.

„Það helgast einfaldlega af ákveðnu óöryggi,“ segir Ísólfur Gylfi. Sveitarstjórn hafi sótt það fast að fá aukna fjármuni til reksturs Kirkjuhvols. „Það hefur ekki gengið vel til þessa en við vonumst til að velferðarráðuneytið komi til móts við okkur fljótlega,“ segir Ísólfur Gylfi.

Fyrri greinSelfoss tapaði í Mýrinni
Næsta greinUppbyggingu raforkuframleiðslu á Hellisheiði lokið