Ágreiningur um viðbótargreiðslur vegna smíði Herjólfs

Herjólfur í Gdansk. Ljósmynd/Vegagerðin

Skipasmíðastöðin Crist S.A. í Póllandi sem hefur nánast lokið smíði nýs Herjólfs gerir kröfu um viðbótargreiðslur sem ekki eru í samræmi við samninginn um smíðina.

Kröfunni hefur verið hafnað og Vegagerðin boðið stöðinni að ljúka greiðslum samkvæmt samningi, fá skipið afhent en vísa ágreiningi um viðbótargreiðslur til þriðja aðila til úrlausnar.

Smíði Herjólfs er á lokastigi enn er þó  eftir að ljúka minniháttar lagfæringum og prófunum auk þess sem Samgöngustofa hefur ekki lokið sinni skoðun og staðfest að gefa megi út haffærnisskírteini. Miðað við eðlilega framvindu ætti þessum verkum að vera lokið öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.

Vegagerðin hefur átt í viðræðum við skipasmíðastöðina Crist S.A. í Póllandi um lokauppgjör vegna smíðinnar en samkomulag liggur ekki fyrir. Skriflegir samningar hafa verið gerðir vegna allra aukaverka sem til hafa fallið á smíðatímanum bæði hvað varðar verð og hugsanlegar tafir. Af þessum sökum telur Vegagerðin að megindrættir lokauppgjörs liggi fyrir með skýrum hætti.

Í frétt frá Vegagerðinni segir að Vegagerðin hafi leitað ráðlegginga erlendra sérfræðinga á þessu sviði varðandi viðbrögð við kröfum stöðvarinnar og er niðurstaðan að krafa skipasmíðastöðvarinnar um viðbótargreiðslu eigi sér ekki stoð í samningi aðila og hefur henni því verið hafnað.

„Vegagerðin hefur lagt til að stöðin afhendi ferjuna í lok næstu viku gegn því að Vegagerðin greiði lokagreiðslu í samræmi við samning auk þess að gera upp samþykkt aukaverk, en kröfu stöðvarinnar um viðbótargreiðslu verði vísað til þriðja aðila til úrlausnar í samræmi við samning. Stöðin hefur ekki fallist á þetta en heldur fast við kröfu sína um viðbótargreiðslu umfram samning og samþykkt aukaverk. Gert er ráð fyrir að það skýrist frekar í næstu viku hvort grundvöllur sé fyrir samkomulagi um framhald málsins en þar til það liggur fyrir verður áfram óvissa um hvenær stöðin hyggst afhenda ferjuna,“ segir í fréttinni.

Fyrri greinViðar 🤐rn svaraði kallinu
Næsta greinEr brjálað að gera?