Ágúst Sigurðsson, bóndi og erfðafræðingur á Kirkjubæ, sigraði örugglega í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra og mun hann því leiða D-listann í komandi sveitarstjórnarkosningum.
Annar í prófkjörinu varð Þorgils Torfi Jónsson, framkvæmdastjóri á Hellu og Sólrún Helga Guðmundsdóttir, móttökuritari á Hellu, þriðja. Átta frambjóðendur gáfu kost á sér og kosið var um sex efstu sætin.
Haraldur Eiríksson, fjármálastjóri í Grásteinsholti varð í 4. sæti en Anna María Kristjánsdóttir, bóndi á Helluvaði, varð 5. og vantaði hana aðeins sjö atkvæði til þess að ná 4. sætinu.
Röð frambjónda var þessi
1. Ágúst Sigurðsson 221 atkvæði í 1. sæti
2. Þorgils Torfi Jónsson 101 atkvæði í 1.-2. sæti
3. Sólrún Helga Guðmundsdóttir 148 atkvæði í 1.-3. sæti
4. Haraldur Eiríksson 155 atkvæði í 1.-4. sæti
5. Anna María Kristjánsdóttir 196 atkvæði í 1.-5. sæti
6. Heimir Hafsteinsson 169 atkvæði í 1.-6. sæti
7. Sindri Snær Bjarnason 164 atkvæði í 1.-7. sæti
8. Sævar Jónsson 147 atkvæði í 1.-8 sæti
463 voru á kjörskrá og tóku 290 manns þátt í kjörinu, sem er um 63% þátttaka.
D-listinn fékk þrjá fulltrúa af sjö í síðustu kosningum. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson oddviti listans á yfirstandandi kjörtímabili gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Aðrir hreppsnefndarfulltrúar listans tóku þátt í prófkjörinu, þau Anna María og Þorgils Torfi.