Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu hefur ritað sveitarstjórn Bláskógabyggðar bréf þar sem hún beinir athygli að óviðunandi aðstæðum göngustíga á fjölsóttum ferðamannastöðum svo sem við Gullfoss vegna hálku.
„Nauðsynlegt er að bregðast við þeim aðstæðum sem nú hafa skapast þar sem mikil hálka er viðvarandi sem skapar mikla hættu fyrir ferðamenn. Mikil fjölgun ferðamanna hefur átt sér stað og þá sérstaklega yfir vetrartímann. Sem dæmi má nefna að ferðamönnum hefur fjölgað um 40 prósent í desember s.l. ef borið er saman við desember 2012. Þetta eru gjörbreyttar aðstæður sem verður að bregðast við“, segir í bréfi Ásborgar.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar kom fram að Drífa Kristjánsdóttir oddviti hafi átt fund með Umhverfisstofnun um ástand göngustíga við Gullfoss. Jafnframt hafi Vegagerðin komið á fund með oddvita, sveitarstjóra og ferðamálafulltrúa til að ræða málin með það að markmiði að finna viðunandi lausnir til að tryggja öryggi ferðamanna.