Hraðakstur innanbæjar í Hveragerði hefur verið nokkuð til umræðu að undanförnu í bæjarfélaginu. Á fundi bæjarráðs á dögunum var lagt fram bréf frá íbúum við efri hluta Heiðmerkur þar sem þeir koma á framfæri óánægju sinni vegna umferðarhraða við götuna.
Í bókun sinni tekur bæjarráð undir áhyggjur íbúanna og hvetur Hvergerðinga og gesti þeirra til að aka í samræmi við löglegan hámarkshraða.
„Samkvæmt umferðaröryggisáætlun Hveragerðisbæjar er Heiðmörkin safngata með 30 km hámarkshraða. Á Heiðmörk ofan Breiðumerkur eiga að vera tvær gönguþveranir önnur rétt ofan við Breiðumörk og hin rétt ofan við Laufskóga. Nú hefur þverunin við Breiðumörk verið boðin út og mun framkvæmdum við hana ljúka í júní. Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að þverunin ofan við Laufskóga verði einnig framkvæmd í sumar enda eru þau gatnamót með þeim hættulegustu í bæjarfélaginu og brýnt að þar geri vegfarendur sér grein fyrir því að Laufskógar eiga þar umferðarréttinn,“ segir í bókun bæjarráðs sem felur jafnframt skipulags- og mannvirkjanefnd að fara yfir umferðaröryggiáætlun bæjarins með það fyrir augum að meta hvort nóg sé að gert í umferðaröryggismálum í bæjarfélaginu.