Gríðarmikið krapaflóð varð í Hvítá í nótt, þar sem áin ruddist yfir Kópsvatnseyrar og síðan upp landið í átt að bæjarstæðinu í Skollagróf í Hrunamannahreppi.
„Áin ruddist hérna töluvert langt upp á tún, sirka 800 metra og eyðilagði allar girðingar og aðra lausamuni sem voru í hennar vegi. Svona stórflóð eru ekki algeng hérna hjá okkur, elstu menn hér í Skollagróf muna ekki annað eins,“ sagði Helgi Valdimar Sigurðsson í Skollagróf í samtali við sunnlenska.is.
Kópsvatnseyrar eru á austurbakka árinnar, um þrjá kílómetra ofan við nýju Hvítárbrúna sem tengir Hrunamannahrepp og Bláskógabyggð.
Vinnuvélar frá verktakafyrirtækinu Orion voru í Grófarnámunni, malarnámu á bökkum Hvítár, fyrir framan Skollagróf en þær björguðust úr flóðinu.
„Grafa sem var í námunni fór í gang og komst í land og öðru var bjargað með henni,“ sagði Helgi en hann tók myndirnar sem fylgja þessari frétt og sýna þær vel hverslags kraftar voru að verki.