Íbúar bæjanna sunnan Þverár og austan Hólsár í Rangárvallasýslu hafa sent frá sér ákall um að tafarlaust verði tryggð flóttaleið fyrir íbúa svæðisins undan hugsanlegu hamfarahlaupi í kjölfar eldgoss í Kötlu.
Íbúarnir segjast vera innikróaðir á svæðinu og benda á að við núverandi aðstæður gætu sumir þurft að aka 25 kílómetra á móti hlaupi.
Sendu þeir ákall sitt á þingmenn kjördæmisins, innanríkisráðuneytið, Vegagerðina og Almannavarnir.
Í ákallinu segir að ósk íbúanna sé sú að brú verði reist yfir Hólsá við Djúpós á mótum Þverár og Ytri-Rangár. Gerð slíkrar flóttaleiðar þar yfir á Þykkvabæjarveg strandi ekki á landeigendum. Þá þurfi jafnframt að styrkja hina 90 ára gömlu Djúpóssstíflu sem sé forsenda byggðar í Þykkvabæ.
Þorkell Guðnason á Eyrarlandi í Þykkvabæ segir að fólk á svæðinu sé í lífshættu ef hamfarahlaup skylli á. „Við þurfum að fá samgöngur og flóttaleiðir því við erum í stórhættu. Við krefjumst þess að fólk sé ekki skilið eftir í hættuástandi þannig að ef boð komi um að flýja svæðið þá sé það ekki hægt,“ segir hann.