„Ákveðin lítil stelpukona sem fær að ráða sér sjálf“

Guðbjörg María Onnoy hefur vakið verðskuldaða athygli afar skrautlegar neglur sem hún gerir. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Guðbjörg María Onnoy frá Selfossi hefur vakið mikla athygli fyrir skrautlegar neglur sem hún hefur verið að gera.

Guðbjörg, sem er með mörg þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlunum TikTok og Instagram, hefur starfað sem naglafræðingur síðastliðin sex ár auk þess að kenna við Shimmer naglaskólann í Reykjavík. Planið var þó ekki alltaf hjá þessari hæfileikaríku ungu konu að starfa sem naglafræðingur.

„Það er fátt sem býðst ungu fólki á atvinnumarkaðnum í dag annað en þjónustustörf, nema að fara í diplómu nám eins og förðun eða neglur. Ég hef alltaf verið glysgjörn og sjúk í allt sem er öðruvísi. Ég var lítil þegar ég fékk fyrstu götin í eyrun. Hef síðan þá fengið mér minnst þrettán til viðbótar, mömmu til mikillar ánægju. Ég er með flúraða fingur og fann snemma að smekkurinn minn flokkast ekki undir neitt sem heitir mainstream en í stað þess að breyta mér til að þóknast öðrum fann ég ástríðu sem leyfir mér að fá greitt fyrir að vera ólík öðrum. Þannig lá leiðin að nöglunum beinast við,“ segir Guðbjörg í samtali við sunnlenska.is.

Ljósmynd/Aðsend

Af þeim sex árum sem Guðbjörg hefur starfað við neglur þá hefur hún verið í eigin rekstri í fjögur ár. „Í dag fer mesta vinnan í að sinna vefsíðunni okkar, onnoyneglur.is og kenna neglur við Shimmer, nýja naglaskólann á höfuðborgarsvæðinu. Það var langþráður draumur sem varð loks að veruleika þegar mér bauðst að taka kennaradiplómuna. Eitthvað sem er ekki sjálfgefið að komast í hér á landi.“

Fær tækifæri til að kynnast ómetanlegum einstaklingum
Guðbjörg segir að hún hafi alltaf verið mjög heppin með viðskiptavini og hafi verið fljót að mynda kúnnahóp. „Ég hugsa það sé að mörgu leyti af því ég byrjaði á lokaári í framhaldsskóla og hver vill ekki vera skvísa á þeim árum?“

„Ég á mjög hliðholla viðskiptavini sem ég geri mitt allra besta að sjá vel um og dekra við en í gegnum neglurnar hef ég líka fengið tækifæri til að kynnast ómetanlegum einstaklingum með mjög fjölbreyttan og ólíkan bakgrunn.“

„Neglurnar hafa verið góður grundvöllur fyrir mig til þess að blómstra, ég fæ að vinna í friði við að skapa það sem ég hef mestan áhuga á og geri það á eigin forsendum. Með öðrum orðum, ákveðin lítil stelpukona sem fær að ráða sér sjálf og vil ég skila miklu þakklæti til viðskiptavina minna sem gera mér það kleift.“

Ljósmynd/Aðsend

Vita ekki fyrirfram hvað þau ganga út með
Guðbjörg segir að frá upphafi hafi hún verið ákveðin í að gera að lang mestu leyti neglur sem eru skrautlegar og vekja athygli. „Markaðssetningin mín hefur alfarið gengið út á það. Þeir einstaklingar sem leita til mín vilja eitthvað extra. Þeir eru þar af leiðandi yfirleitt með sérstakar óskir um eitthvað einstakt.“

„Vinsælasti þjónustuliðurinn hjá mér er þó liður sem heitir freestyle, þar sem viðskiptavinur veitir mér frelsi til að gera hvað sem er. Stór hópur minna viðskiptavina kemur eingöngu í freestyle og veit þar af leiðandi aldrei hvað þau ganga út með í lok tímans.“

„Margir halda ég geri aldrei „einfaldar“ neglur en það er ekki raunin. Mín skoðun er sú að naglafræðingur á að vera fær um flest en sérhæfa sig í einhverju tilteknu. Ég sérhæfi mig í naglaskrauti en legg mikinn metnað í að mastera tæknilegu og fræðilegu hliðar þess að gera góðar neglur. Þar koma „einföldu“ neglurnar sterkt inn og fæ ég mikið af þeim viðskiptavinum til mín. Ég get þó lofað því að það er ekki stakur viðskiptavinur hjá mér sem hefur ekki á einhverjum tímapunkti freistast til að prufa eitthvað nýtt og framandi hjá mér.“

Ljósmynd/Aðsend

List sem er fullkomlega ófullkomin
Innblásturinn að nöglunum – sem er best lýst sem listaverki – sækir Guðbjörg víða. „Ég fæ mikinn innblástur frá listafólki og öðrum naglafræðingum erlendis. Það er enginn samfélagsmiðill sem ég opna án þess að sjá neglur þannig það er ekki langt að leita. Ég er mjög hrifin af list sem er fullkomlega ófullkomin og ég vinn neglurnar mínar oft þannig.“

„Svo er ég hálf tælensk og leita mikið í þann menningarheim sem er meðal annars stútfullur af fallegum útskorningum, flóknu mynstri, sterkum litum og virðingu við náungann sem ég fullvissa mig um að skili sér í gegnum það sem ég geri,“ segir Guðbjörg en hún á tælenskan pabba og íslenska móður.

Að mörgu leyti vanmetin stétt
Á samfélagsmiðlinum TikTok hefur Guðbjörg verið dugleg að vekja athygli á því hvernig það er að vera naglafræðingur á Íslandi. Hún segir það að mörgu leyti verið krefjandi starf en að sama skapi veitir starfið tækifæri sem bjóðast ekki annars staðar.

„Íslenski markaðurinn er stærri en margan grunar. Bæði framboð af naglafræðingum og hlutfall viðskiptavina. Það eru margir sem leita þjónustu til naglafræðinga sem hefur ekkert með framlengingu og skraut að gera. Naglafræðingar geta aðstoðað við allskonar eins og klofnar neglur, lausnir við of þurrum, of stuttum, nöguðum nöglum og svo lengi mætti telja. Við erum að mörgu leyti vanmetin stétt og gleymist reglulega að við erum margar sérfræðingar í anatómíu naglarinnar og sérlegir sérfræðingar þegar kemur að vörunum sem við notum. Þar af leiðandi fróðar um hvað hentar hvaða aðstæðum og hvenær.“

„Af því markaðurinn er stór og margt í boði geta upplýsingar verið villandi og áherslan ekki á réttum stað. Upplifun margra naglafræðingar er skortur á umgjörð eða leiðbeiningum varðandi allt sem viðkemur rekstri, verðlagningu, þjónustulund og að setja mörk. Að sama skapi hefur mórallinn til margra ára verið mikil samkeppni sem hefur haft neikvæðar afleiðingar í för með sér. Samkeppnin hefur leitt til samanburðar af neikvæðum toga og ýtt mörgum út í horn vegna hræðslu við að leita ráða, eða við að veita ráð, vegna ótta við að einhver standi þér ofar fyrir vikið.“

Ljósmynd/Aðsend

Stemmingin meðal naglafræðinga að breytast
Guðbjörg segir að um þessar mundir sé að eiga sér stað breyting sem hún hefur lengi óskað sér. „Það er að myndast mikil samstaða meðal naglafræðinga á samfélagsmiðlum og í fyrsta sinn á mínum sex árum get ég með stolti sagt að ég hafi loksins kynnst naglafræðingum og við erum í reglulegum samskiptum. Eitthvað sem áður var mjög fjarri mér vegna samkeppninnar.“

„Ég hef mikið rætt galla þess að þessi iðngrein sé ekki viðurkennd og persónulega myndi ég glöð sitja þetta nám í þrjú ár eða kenna það, sem er ein krafan gerð til löggildingu iðngreinar, en við þyrftum að ganga hægt inn um þær gleðinnar dyr ef einhvern tíman kæmi að því vegna þess að löggildingu fylgja allskonar hindranir sem við höfum hingað til ekki gengist undir. Þess vegna segi ég að við eigum að njóta þess sem er, á meðan er og leggja áherslu á að halda utan um hver aðra og fræða nemendur okkar betur um það sem viðkemur öllu utan naglanna sjálfra.“

Ljósmynd/Aðsend

Sálfræðilegu mómentin dýrmæt
Guðbjörg segir það vera mjög gefandi að fá að skapa eitthvað sem vekur athygli og oft undrun. „Það sem ég hef þó grætt mest á þessum bransa eru öll samskiptin og sálfræðilegu mómentin þar sem ég fæ að vera til staðar fyrir einhvern sem þurfti allra mest á hlutlausum aðila að halda til að sitja og hlusta. Ég hef verið svo lánsöm að öðlast víðtækari sýn á margt er snýr að lífinu og ólíkri reynslu í gegnum hundruði þeirra sem hafi sest í stólinn hjá mér.“

„Að því sögðu, ef ég fengi að velja mér einhvern tiltekinn Íslending til að fá í stólinn væri það ekki naglanna vegna, heldur manneskjunnar vegna. Stór fyrirmynd í mínu lífi undanfarin ár hefur verið Gerður Arinbjarnar, eigandi Blush.is. Það er eflaust stór hópur Íslendinga sem hefur afrekað stærri hluti en Gerður en ég myndi velja hana. Hún fær sér í 90% tilfella það sama, sem er langt frá því að vera í takt við það sem ég stunda, þannig ég vel hana af einlægri hrifningu af kraftinum sem hún hefur til að berjast á móti straumnum, láta engann segja sér til um hvað er rétt eða rangt og hvernig hún kemur fram við aðra. Síður af því sem hún á eða hefur afrekað.“

„Hvað listræna hlutann varðar er mikil list og tækni fólgin í því að gera neglur sem birtast í mynd og þess vegna er annar draumur að fá að gera neglur fyrir Eurovision, tónlistarmyndbönd, myndir eða almennt sjónvarpsefni,“ segir Guðbjörg að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSkipulagsmál og uppbygging í Árborg
Næsta greinHulda Dís framlengir á Selfossi