„Þessi ákvörðun Háskólaráðs er bæði fáránleg og fyrirséð. Það er verið að breyta Háskóla Íslands í Háskólann í miðbænum.“
Þetta segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri á Sólheimum og sveitarstjórnarmaður í Grímsnes- og Grafningshreppi um þá ákvörðun Háskólaráðs að flytja námsbraut í íþrótta- og heilsufræði frá Laugarvatni til Reykjavíkur.
„Á sama tíma og þingmenn Suðurkjördæmis segja að HÍ hafi glatað trausti þingmanna, segja vafalaust margir Sunnlendingar að þingmenn Suðurkjördæmis hafi glatað trausti Sunnlendinga með þvi að geta ekki staðið vörð um metnaðarfullt háskólastarf á Suðurlandi,“ segir Guðmundur Ármann.
„Það er aðeins eitt að gera í þessari stöðu og það er að tryggja að allar eigur og eignir Íþróttafræðaseturs Háskóla Íslands á Laugarvatni verði afhentar Samtökum Sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Á vegum SASS og fleiri aðila er rekið Háskólafélag Suðurlands sem tæki þá yfir ábyrgð á starfseminni á Laugarvatni. Það væri þá okkar sunnlenskra sveitarstjórnarmanna að kanna til þrautar áhuga annara aðila s.s. Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri, Keili og mögulega fleiri aðila á að halda áfram öflugu og metnaðarfullu háskólastarfi á Laugarvatni eins og verið hefur í áratugi og/eða skoða önnur tækifæri,“ segir Guðmundur Ármann ennfremur og bætir við að eignir sem byggðar hafa verið upp í áratugi í tengslum við íþróttafræðasetur verði notaðar til að búa til vasapening og þannig þeir verðlaunaðir sem brjóta niður. Það sé ekki ásættanlegt.
„Boltinn er hjá þingmönnum Suðurkjördæmis, það er munur á orðum og athöfnum,“ segir Guðmundur Ármann að lokum.