Álag á útsvar í Árborg afnumið á næsta ári

Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Álag á útsvar íbúa Sveitarfélagsins Árborgar verður afnumið árið 2025, ári fyrr en til stóð. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem lögð var fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag.

Áfram verður innheimt hámarksútsvar í Árborg, 14,97%, en útsvarsprósentan lækkar um 1,474% frá árinu í ár.

Í fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B hluta verði jákvæð sem nemur 105 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um tæpa 2,9 milljarða króna. Veltufé frá rekstri er áætlað rúmir 2 milljarðar króna í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 13,9 og skuldaviðmiðið komið í 126,5%.

Gleðjumst yfir áfanganum
„Þetta er jákvæð niðurstaða og umfram áætlanir og markmið aðgerðaráætlunar Brú til betri vegar. Reksturinn verður traustari og sveitarfélagið er nú vel undir 150% skuldaviðmiði og þriggja ára rekstrarjöfnuður að verða jákvæður,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri.

„Þetta veitir bæjarstjórn tækifæri til að lækka álög á íbúa þegar fram líða stundir, og fyrsta skrefið í þá átt er að afnema álag á útsvar á árinu 2025. Verkefninu er þó ekki lokið en við munum standa vörð um grunnþjónstu við íbúa. Áfram verður leitað leiða til hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins, en við gleðjumst yfir áfanganum,“ segir Bragi ennfremur.

Góð flokkun úrgangs að skila sér
Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði mun hækka í 0,48% af fasteignamati og vatns- og fráveitugjald lækkar, að hluta til á móti fasteignaskatti, í 0,102% fyrir eignir í A-flokki en gjöld á B- og C-flokk haldast óbreytt. Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka hjá þeim sem eru með tvískipta tunnu og hækka lítillega eða standa í stað í öðrum flokkum. Íbúar fá sérstakt hrós fyrir góða flokkun úrgangs sem er að skila sér í auknum tekjum frá Úrvinnslusjóði og er því hægt að lækka þá flokka.

Fasteignagjöld hækka mest við ströndina
Ætla má að hækkun fasteignagjalda verði að meðaltali um 5-14% milli ára. Skýrist það af mismunandi hækkun fasteignamats milli svæða, en Eyrarbakki og Stokkseyri hækka mest þetta árið. Aðrar gjaldskrár sveitarfélagsins hækka almennt um 3,5% sem er í takti við verðlagsþróun.

Framkvæmt fyrir rúma 2 milljarða króna
Áætlað er að framkvæma fyrir rúmlega tvo milljarða á næsta ári og hefur eigna- og veitunefnd ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins unnið að forgangsröðun til að fjármagnið nýtist sem best.

Helstu framkvæmdir næsta árs eru tengdar viðbyggingu við leikskólann Jötunheima, uppbyggingu nýrrar kennslusundlaugar við Sundhöll Selfoss, endurnýjun Eyrargötu á Eyrarbakka, gatnagerð á Stokkseyri, skólalóð Vallaskóla og áframhaldandi framkvæmdum á hreinsistöðinni í Geitanesi. Byrjað verður á nýrri dælustöð og geymi ásamt frekar rannsóknum og virkjunum hjá Selfossveitum. Næsti áfangi Stekkjaskóla verður tekinn í notkun í upphafi árs og í framhaldinu hafin hönnun á þriðja áfanga sem mun hýsa tónlistarskóla og íþróttamannvirki.

Meiri vinnuskóli og Árblik opið yfir sumarið
Árið 2025 verður 8. bekk bætt við vinnuskólann sem verður þá fyrir 8.-10. bekk ásamt úrræðum fyrir 17+ hópinn. Dagdvölin Árblik verður aftur opin yfir sumartímann og heilsuefling eldri borgara á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri verður áfram í boði.

Þrátt fyrir batnandi fjárhag eru áfram áskoranir í rekstri sveitarfélagsins. Vextir og verðbólga hafa áhrif á allan rekstur í dag og kjarasamningsviðræður eru í gangi hjá stórum hópi starfsmanna sveitarfélaga sem geta einnig haft mikil áhrif á áætlanir.

Fyrri greinSex grunnskólar taka þátt í Skjálftanum
Næsta greinJólamarkaður MFÁ í kvöld