Rafskútuleigan Hopp hóf starfsemi sína í Hveragerði í gær en 40 rafskútum hefur verið komið fyrir í bæjarfélaginu.
Það er heimamaðurinn Sigurgeir Skafti Flosason sem rekur leiguna í Hveragerði en Hopp-hjól má nú finna á tíu bæjarfélögum á landinu, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Akureyri og Vestmannaeyjum en til stendur að opna seinna í mánuðinum á Hellu og Selfossi.
Minnka kolefnissporið
„Hopp-hjólin eru rekin að meginmarkmiði til að minnka kolefnisspor stuttra ferða og er sú hugsjón tekin alla leið frá því að hjólin koma til landsins. Þar sem rafknúin ökutæki sjá um koma hjólum á hvern stað og hver leiga er með raf-sendiferðabíl á sínum snærum. Sumsé grænt alla leið frá komunni til Íslands og má segja að þetta skeri fyrirtækið úr á sínu þjónustusviði,“ sagði Sigurgeir Skafti í samtali við sunnlenska.is.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri og Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi voru fyrstar til að fara prufuferð um bæjarfélagið í gær og voru þær himinlifandi með ferðina og töldu engan vafa á því að þessi ferðamáti myndi nýtast mörgum í bæjarfélaginu, bæði íbúum og gestum bæjarins.
Komast um allt í Hveragerði
Notendur aflæsa rafskútunum með appi og geta síðan keyrt um á þeim gegn vægu gjaldi. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútunni hvar sem er innan þjónustusvæðis. Þjónustusvæðið þekur allt Hveragerði og einnig verður hægt að fara á rafskútunum upp í Hamarshöll og inn að Árhólum, bílastæðinu við Reykjadal. Rafskúturnar eru með hámarkshraða upp á 25km/klst og komast hátt í 35km á einni hleðslu.
„Líkt og í Reykjavík mun Hopp í Hveragerði sjá til þess að þjónustan gagnist heimamönnum fyrst og fremst. Markmiðið er að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænan, ódýran og handhægan ferðamáta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu. Það mun kosta 100 kr að aflæsa rafskútunum og svo 30 kr hver mínúta í leigu þar á eftir. Fimm mínútna ferð mun því kosta 250 krónur. Einnig er hægt að setja rafskútuna í „pásu“ og kostar þá mínútan aðeins 20 kr,“ segir Sigurgeir Skafti að lokum en í tilefni opnunarinnar munu nýir notendur sem sækja appið fá fyrstu tvær ferðirnar sínar ókeypis, fyrst um sinn.