Aldís Hafsteinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði, er væntanlegur sveitarstjóri Hrunamannahrepps.
D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra í Hrunamannahreppi tilkynnti þetta á Facebooksíðu sinni í kvöld. D-listinn sigraði í kosningunum í Hrunamannahreppi með 55,17% atkvæða og þrjá menn kjörna en listinn var í minnihluta á síðasta kjörtímabili.
„Eins og flestir vita hefur [Aldís] gegnt stöðu bæjarstjóra Hveragerðis síðastliðin 16 ár og er sitjandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er því mikill kostur að fá til liðs við okkur slíkan reynslubolta á sveitarstjórnarstiginu,“ segir í tilkynningu D-listans.
„Það eru áskoranir framundan hjá sveitarfélaginu, uppbygging og sjáanleg ör íbúaþróun en á sama tíma verðbólga og háir vextir. Það var því mat okkar að fyrsti kostur væri að ræða við Aldísi og auglýsa ekki stöðu sveitastjóra ef þessi kostur gæfist.“