Tvennt slasaðist í bílveltu á Skeiðavegi um klukkan átta í gærkvöldi. Um var að ræða aldraða ferðamenn, mann og konu, sem flutt voru á sjúkrahús í Reykjavík.
Fólkið hlaut höfuðmeiðsl og áverka á brjóstkassa en var með meðvitund þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang.
Morgunblaðið greinir frá þessu og hefur eftir lögreglunni á Suðurlandi að fólkinu hafi verið mjög brugðið og verið illa áttað eftir slysið.
Tildrög slyssins eru enn ókunn en til rannsóknar er hvort ökumaður hafi sofnað undir stýri eða hann átt við líkamleg veikindi að stríða. Aðstæður á slysstað voru góðar.