Ófremdarástand ríkir í málefnum aldraðra og mikið veikra einstaklinga vegna skorts á hjúkrunarrýmum á Suðurlandi að mati rekstaraðila hjúkrunarheimila í landsfjórðungnum.
Nú bíða 27 einstaklingar í brýnni þörf eftir að komast að. Þeim tilfellum fjölgar þar sem Sunnlendingar fara inn á hjúkrunarheimili á Reykjavíkursvæðinu þar sem auðveldara er að komast að. Þörfin er langmest á Árborgarsvæðinu og orðið algengt að eldra fólk sem á heima þar þurfi að leita eftir hjúkrunarrými langt frá heimilum sínum með tilheyrandi einangrun frá ættingjum.
„Ef einhversstaðar á að byggja hjúkrunarheimili, þá er það á Suðurlandi,“ segir Magnús Skúlason framkvæmdastjóri HSu sem á sæti í samráðsnefnd heilbrigðisumdæmi Suðurlands en nefndin fundaði nýlega með rekstraraðilum hjúkrunarheimila.
Þar kom m.a. fram að á sama tíma og þörf íbúa eftir hjúkrunarrýmum eykst þá sé niðurskurður á hjúkrunarrýmum á svæðinu. Segir í ályktun fundarins að engan skuli undra þótt þörf fyrir hjúkrunarrými aukist. Þessir aðilar gera þá kröfu til ríkisstjórnar og Alþingis að sameinast verði um að leysa þenna brýna vanda.
Eftir því sem heimildir Sunnlenska herma er þó mismunandi hvernig litið er á vandann, því tölur landlæknisembættisins um fjölda þeirra sem eru í mikill þörf á að komast inn á hjúkrunar og dvalarheimili eru ekki þær sömu og hjá velferðarráðneytinu. „Við vitum að þörfin er brýn,“ segir Magnús og vill að yfirvöld átti sig á vandanum og nái saman um tölur.