Aldraðir fluttir langt frá heimilum sínum

Ófremdarástand ríkir í málefnum aldr­aðra og mikið veikra einstaklinga vegna skorts á hjúkrunarrýmum á Suðurlandi að mati rekstaraðila hjúkrunarheimila í landsfjórðungn­um.

Nú bíða 27 einstakling­ar í brýnni þörf eftir að komast að. Þeim tilfellum fjölgar þar sem Sunn­lendingar fara inn á hjúkrunar­heimili á Reykjavíkursvæðinu þar sem auðveld­ara er að komast að. Þörfin er langmest á Árborgar­svæðinu og orðið algengt að eldra fólk sem á heima þar þurfi að leita eftir hjúkrunarrými langt frá heimilum sínum með tilheyrandi einangr­un frá ættingj­um.

„Ef einhvers­staðar á að byggja hjúkrunarheimili, þá er það á Suður­landi,“ segir Magnús Skúla­son framkvæmda­stjóri HSu sem á sæti í samráðsnefnd heil­brigðis­umdæmi Suðurlands en nefndin fundaði nýlega með rekstraraðilum hjúkrunar­heimila.

Þar kom m.a. fram að á sama tíma og þörf íbúa eftir hjúkrunarrýmum eykst þá sé niðurskurður á hjúkrunarrýmum á svæð­inu. Segir í ályktun fundarins að engan skuli undra þótt þörf fyrir hjúkrun­arrými aukist. Þessir aðilar gera þá kröfu til ríkisstjórnar og Alþingis að sam­einast verði um að leysa þenna brýna vanda.

Eftir því sem heimildir Sunn­lenska herma er þó mismunandi hvern­ig litið er á vand­ann, því tölur land­læknisembættisins um fjölda þeirra sem eru í mikill þörf á að komast inn á hjúkrun­ar og dvalarheimili eru ekki þær sömu og hjá velferðarráðneytinu. „Við vitum að þörfin er brýn,“ segir Magnús og vill að yfirvöld átti sig á vandanum og nái saman um tölur.

Fyrri greinFluttur með þyrlu á sjúkrahús
Næsta greinSnjósleði lenti í á