Úthlutað var úr Sjóðnum góða nú í vikunni. Umsóknir um styrk úr sjóðnum hafa aldrei verið fleiri en hátt í fimm hundruð einstaklingar fengu úthlutað úr sjóðnum í ár.
Sjóðurinn góði var settur á laggirnar árið 2008 og er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings, Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Sjóðurinn hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.
Þakklát fyrir stuðninginn
„Í ár fengum við veglega matargjöf frá Kaupfélagi Skagfirðinga og var í þeim pakka allt það helsta til að halda gleðileg jól. Þá lánaði TRS á Selfossi okkur bæði tölvur og setti upp símaver, því þetta árið urðum við að láta umsóknarferlið fara fram rafrænt,“ segir Erla Sigurjónsdóttir, deildarstjóri Árnessýsludeildar Rauða krossins.
„Í ár voru það 179 fjölskyldur sem fengu úthlutað úr sjóðnum eða 480 einstaklingar. Þetta er mikil aukning frá fyrri árum. Hver fjölskylda fær úthlutað gjafakorti, matargjöf og jólapakka. CCP gáfu kort frá Bónus þetta árið, þá gaf Krónan gjafakort og einnig Nettó. Framlög í sjóðinn koma frá einstaklingum, fyrirtækjum, verslunum og án þessara aðila væri þetta ekki hægt. Við erum afar þakklát fyrir þennan stuðning,“ segir Erla.
Erfitt að mega ekki knúsa fólk
„Flestir sem koma að vinnunni í kringum þetta eru sjálfboðaliðar. Líðanin hjá okkur sem stöndum í fremstu línu er mjög góð. Okkur líður vel í hjartanu á svona stundu. Þetta tekur á bæði andlega og líkamlega því oft á tíðum þarf að knúsa fólk en á svona tímum er það ekki hægt, því miður.“
„Þetta árið urðum við að fara eftir reglum um tíu manna samkomutakmarkanir svo þetta var frekar erfitt á köflum. Við hefðum getað notað fleiri hendur við þetta, því að það er mikill burður á matvælum en þetta tókst allt og allir glaðir.“
„Fyrir hönd Sjóðsins góða viljum við þakka öllum þeim aðilum sem að sjóðnum koma kærlega fyrir þeirra framlag. Einnig vil ég þakka Fjölbrautaskóla Suðurlands fyrir lán á sal fyrir úthlutun,“ segir Erla að lokum.