Aldrei fleiri íbúðir í byggingu á Suðurlandi

Húsbygging í Björkurstykki á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Á Suðurlandi eru nú 1.100 íbúðir í byggingu og hafa aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.

Þar segir að utan höfuðborgarsvæðisins hafi ekki fleiri íbúðir verið í byggingu síðan 2008. Samkvæmt tölum Hagstofunnar virðist íbúðaverð þróast með svipuðu móti á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins hefur þó hækkað enn hraðar en innan þess.

Í lok júlí 2022 voru samtals 2.672 íbúðir í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins. Skiptingin á milli fjölbýlis og sérbýlis er nokkuð jöfn. Það sem af er ári hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 12% en þeim hafði fjölgað um rúm 33% á milli áramóta 2020 og 2021.

„Á árunum 2009-2016 komu hlutfallslega fáar íbúðir inn á markaðinn þó svo að mikið af íbúðum væru í byggingu. Ferlið virðist því vera orðið skilvirkara nú en áður og er því viðbúið að talsvert komi áfram inn af nýjum íbúðum á næstu misserum, enda mikil eftirspurn eftir íbúðum,“ segir í Hagsjá Landsbankans

Fyrri greinHamar skoraði tíu – KFR tapaði
Næsta greinDýpkun undir brúnni dugði til