Þrátt fyrir veirufaraldur fer skólastarf í FSu vel af stað. Að sögn Sigursveins Sigurðssonar aðstoðarskólameistara eru skráðir nemendur í dagskóla 910 og þar af 261 nýnemi „sem er metfjöldi nýnema frá upphafi skólastarfs í FSu. Heildartala nemanda í gegnum árin hefur farið yfir eitt þúsund en nýnemar hafa aldrei verið eins margir.”
Skýringuna segir Sigursveinn liggja helst í fjölmennum árgöngum og að mikil fjölgun eigi sér stað á Árborgarsvæðinu og sérstaklega á Selfossi.
„Vissulega hefur þessi faraldur neikvæð áhrif á félagslífið sem er stór hluti af því að stunda nám í framhaldsskóla en vandinn er ræddur og leystur á fundum skólaráðs sem er samráðsvettvangur stjórnenda, kennara og síðast en ekki síst nemenda.”
Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu skólans og þar er þess einnig getið að stórum hátíðahöldum í tilefni af fjörutíu ára afmæli skólans þann 13. september næstkomandi verður frestað um óákveðinn tíma en þess í stað athyglinni beint að smærri viðburðum.