Aldrei fleiri nýnemar í FSu

Fjölbrautaskól Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Nýnemar við Fjölbrautaskóla Suðurlands eru 285 á nýhafinni haustönn og hafa aldrei verið fleiri frá því að skólinn var stofnaður árið 1981. Heildarfjöldi nemenda í dagskóla er 990 og er það líka met eftir að framhaldsskólinn var styttur um ár.

Stofurnar sérstaklega vel nýttar
„Þessi fjöldi gerir það að verkum að hópum í sumum námsgreinum hefur fjölgað og það kallar á að stofur séu sérstaklega vel nýttar. Við náðum að koma öllum fyrir nú á haustönn, en ef svipaður fjöldi nýrra nemenda kemur inn á næstu árum þá þrengir verulega að í því húsnæði sem við höfum,“ segir Björgvin E. Björgvinsson, áfangastjóri í FSu, í samtali við sunnlenska.is.

Björgvin segir að með auknum nemendafjölda hafi þurft að ráða fleiri kennara og starfsmenn.

Akademíurnar laða að
„Ástæðuna fyrir vinsældum skólans tel ég vera það fjölbreytta námsúrval sem við bjóðum bæði í bók- og verknámi. Akademíurnar laða líka að og svo má ekki gleyma því úrvalsliði starfsmanna sem við höfum á að skipa,“ segir Björgvin.

„Hvað bílastæðin varðar þá má búast við því að með auknum fjölda verði meiri ásókn í þau. Við hvetjum nemendur og starfsfólk skólans, sem tök hafa á, að koma með öðrum hætti í skólann. Það má líka benda á að skólinn er Heilsueflandi framhaldsskóli með umhverfisstefnu og Grænfánann,“ segir Björgvin að lokum og henti af því tilefni í þessa limru hér:

Ætlirðu‘ að skreppa‘ upp í skóla
er skynsamlegt þangað að dóla
með almenningsvagni,
(svo umhverfið fagni),
hlaupa‘ eða ganga‘ eða hjóla.

Bílastæðin við FSu eru vel nýtt rétt eins og skólastofurnar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Fyrri greinJónas Karl áfram í vínrauðu
Næsta greinHlaupið kom úr eystri katlinum