Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra 2010 voru afhent sl. laugardag á Hvolsvelli.
Veittar voru viðurkenningar í fjórum flokkum; fegursti garðurinn er Túngata 3 á Hvolsvelli hjá þeim Helgu Þorsteinsdóttur og Sigurgeiri Bárðarsyni.
Snyrtilegasta þjónustu- og/eða iðnaðarfyrirtækið er Hlíðarendi á Hvolsvelli og tóku þau Guðmundur Elíasson og Ólafía Ingólfsdóttir við viðurkenningunni.
Fegursta gatan er Vallarbraut á Hvolsvelli og tók Fjóla Guðlaugsdóttir við viðurkenningunni fyrir hönd íbúa götunnar.
Snyrtilegasta býlið er Eyvindarhólar hjá þeim bræðrum Jóni og Gunnari Sigurðarsonum.
„Það má með sanni segja að sveitungar hafi tekið til hendinni og að sveitarfélagið hafi aldrei litið betur út en í sumar, þrátt fyrir öskufall í vor,“ sagði Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
„Allir þessir aðilar hafa staðið sig með mikilli prýði við að halda sínu nánasta umhverfi fallegu og snyrtilegu. Þau eru sveitarfélaginu til mikils sóma og óskum við þeim til hamingju með viðurkenningarnar.“