Sauðfjársæðingum þessarar fengitíðar lauk á föstudaginn en þá var síðasta sæðisútsending þessa árs frá sauðfjársæðingastöðvunum. Hrútarnir fá nú kærkomið jólafrí enda hafa þeir verið undir miklu álagi undanfarnar vikur.
Hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands gekk sæðistaka og útsending ákaflega vel og var áhugi, þátttaka og útsending meiri en nokkru sinni fyrr. Frá stöðinni var sent út sæði í 22.775 ær sem er met. Ef reiknað er með 70% nýtingu á sæði, sem er algengt, má reikna með að 15.900 ær hafi verið sæddar með sæði frá stöðinni.
Til samanburðar var sent út sæði í 18.440 ær í fyrra og útsending þessa árs því 4.335 skömmtum meiri en ársins 2011. Þá má geta þess að mest var sent út þann 13. desember en þá var afgreitt sæði í 1.825 ær.
Mest var sent út úr eftirtöldum hrútum:
Birkir frá Bjarnastöðum í Öxarfirði 2.420 skammtar
Ás frá Skriðu í Hörgárdal 1.705 skammtar
Grámann frá Bergsstöðum á Vatnsnesi 1.570 skammtar
Borði frá Hesti í Borgarfirði 1.570 skammtar
Snær frá Ingjaldsstöðum í Þingeyjarsveit 1.560 skammtar
Kroppur frá Bæ 1 í Árneshreppi 1.515 skammtar
Útsending úr Birki er sú næstmesta úr einum hrút á einni fengitíð frá upphafi. Á árinu 2010 voru sendir út 2.865 skammtar úr Grábotna frá Vogum II í Mývatnssveit og er það metútsending. Birkir slær hins vegar gömlu meti Rafts frá Hesti í Borgarfirði frá 2006 við en það ár voru sendir 2.390 skammtar út úr honum.