Alefli ehf í Mosfellsbæ átti lægsta tilboðið í nýbyggingu RARIK við Larsenstræti 4 á Selfossi en tilboð voru opnuð síðastliðinn mánudag.
Tilboð Aleflis hljóðaði upp á rúmlega 753,8 milljónir króna en öll tilboðin reyndust yfir kostnaðaráætlun RARIK sem var rúmlega 681,7 milljónir króna.
Flotgólf ehf í Kópavogi bauð 870,2 milljónir króna í verkið og Fortis ehf í Þorlákshöfn bauð tæpa 1,2 milljarða króna.
Um er að ræða skrifstofubyggingu, aðstöðuhús og lager ásamt geymslu og tengibyggingu en heildarbyggingarmagn á lóðinni verður 1.560 fermetrar. Þar af er skrifstofubyggingin og aðstaða starfsmanna um 900 fermetrar.
Húsið leysir af hólmi starfsstöðvar RARIK sem eru á þremur stöðum á Selfossi í dag. Með nýju húsnæði mun starfsemin færast á einn stað.
Verkinu á að vera lokið þann 1. maí árið 2023.