Alelda bíll í Kömbunum

Bíllinn var alelda þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Umferðartafir eru á vesturleið í Kömbunum eftir að eldur kviknaði þar í fólksbíl á fjórða tímanum í dag.

„Þetta var bílaleigubíll á leið upp Kambana, fólkið varð vart við eld og stoppaði og komst út, en þegar við komum á staðinn var mikill eldur í bílnum og hann er mikið skemmdur, sagði Lárus Kristinn Guðmundsson,“ varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við sunnlenska.is.

Þrír voru um borð í bílnum og sluppu ómeidd en bíllinn er ónýtur. Að sögn Lárusar er um að ræða tvinn-rafbíl, en eldurinn fór ekki í rafhlöðu bílsins.

Slökkviliðsmenn frá Hveragerði ásamt dagvaktinni á Selfossi fóru á vettvang og slökkvistarf gekk vel. Lögreglan er á vettvangi og verða tafir á svæðinu á meðan beðið er eftir dráttarbíl.

Fyrri greinKomu FSu á kortið
Næsta greinFjögur tilboð bárust í Hamarshöllina