Í síðustu viku hlutu sextán framúrskarandi námsmenn námsstyrki Landsbankans við úthlutun úr Samfélagssjóði bankans. Ein þeirra var Selfyssingurinn Álfrún Diljá Kristínardóttir, sem stundar nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Álfrún Diljá er 17 ára gömul og stefnir á að brautskrást með stúdentspróf eftir fimm annir, um næstu jól, en hún lauk sinni fjórðu önn í vor á íþróttalínu í FSu. Álfrún útskrifaðist ári á undan úr grunnskóla, tók 10. bekk samhliða 9. bekk og hefur á þessari hraðsiglingu gegnum skólakerfið sýnt mjög góðan námsárangur.
Álfrún Diljá æfir frjálsar íþróttir með meistaraflokki frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss, þar sem hún einbeitir sér helst að sleggjukasti en Álfrún er margfaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokkum og hefur sett fjöldann allan af Íslandsmetum og HSK-metum í sleggjukasti og lóðkasti. Einnig þjálfar hún frjálsar íþróttir og er með dómararéttindi.
Íþróttirnar eru ekki eina áhugamálið því Álfrún lærði á klarinett í sex ár og tók miðpróf á hljóðfærið. Í fjölbrautaskólanum hefur hún tekið 40-42 einingar á önn, æft frjálsar að minnsta kosti 7 daga vikunnar og unnið aðra hverja helgi. Framtíðar plön Álfrúnar eru að fara til Bandaríkjanna í háskóla á íþróttastyrk.
Velja metnaðarfulla og framúrskarandi námsmenn
Styrkirnir voru nú veittir í 34. skipti og nam heildarupphæð námsstyrkjanna átta milljónum króna. Alls bárust yfir 550 umsóknir í ár. Dómnefndin leitaðist við að velja metnaðarfulla, framúrskarandi námsmenn með athyglisverða framtíðarsýn sem nefndin taldi líklega til að auðga íslenskt samfélag í framtíðinni. Einnig var litið til annarra atriða við valið, svo sem rannsókna og greinaskrifa, sjálfboðaliðastarfa, þátttöku í íþróttum og í félagsstarfi, svo nokkuð sé nefnt.