Sagan um ljóta andarungann hefur snúist við í Mýrdalnum því þar hefur álftapar tekið að sér tvo grágæsarunga.
Birna Viðarsdóttir birti myndir af fjölskyldunni á Facebook í gær. Hún hefur fylgst með álftaparinu síðustu ár og segir að venjulega komi það upp fimm til sex ungum. Nú séu álftarungarnir hins vegar bara tveir, og tveir grágæsarungar hafi verið teknir „til ættleiðingar“.
„Þegar ég hugsa til baka þá man ég eftir því að fyrir nokkrum árum að þau voru með einn gæsarunga með sér. En þetta er vissulega óvenjulegt og það er mjög skemmtilegt að fylgjast með þessari fallegu fjölskyldu,“ segir Birna.
Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur á Stokkseyri, segir að ættleiðingar sem þessar séu ekki algengar.
„Nei, ég man ekki til þess að hafa heyrt um þetta fyrr hjá álftum, en endur gera þetta stundum. Þá hafa fleiri tegundir orpið í hreiðrið og allt ungast út saman. Móðirin hefur þá tekið að sér að ala upp unga annarra tegunda. Það gæti hafa gerst hjá þessum álftum að grágæs hafi orpið í hreiðrið þeirra,“ segir Jóhann Óli.
Hann segir ekkert því til fyrirstöðu að álftin geti komið gæsarungunum á legg. „Bæði gæsin og álftin lifa á svipaðri fæðu, þau eru grasbítar,“ segir Jóhann Óli.
Ljóti andarunginn, sem á endanum varð fallegur svanur, hraktist frá sinni fjölskyldu, en það er vonandi að uppeldið í Mýrdalnum gangi vel og fuglarnir geti búið saman í sátt og samlyndi.