Algengur flækingur með haustlægðunum

Aðmíráll á Sléttabóli á Skeiðum. Ljósmynd/Lilja Jóhannesdóttir

Síðustu daga hefur borið mikið á aðmírálsfiðrildum víðsvegar um Suðurland.

„Aðmíráll (l. Vanessa atalanta) er algengur flækingur hér á landi og er fyrsta skráða eintakið frá 1901. Hann hefur fundist á láglendi um allt land en flestir fundarstaðir eru á sunnanverðu landinu,“ segir Matthías Alfreðsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við sunnlenska.is.

„Það er ómögulegt að segja til um hversu mörg fiðrildin eru, sú tala er breytileg milli ára en fjöldinn í ár er umtalsverður,“ segir Matthías og bætir því við að ekki séu til dæmi um aðmíráll geti fjölgað sér eða lifað af vetur hér á landi. Það má því segja að aðmírállinn hafi aðeins bókað flug aðra leiðina.

„Það má gera ráð fyrir því að aðmíráll berist til landsins á hverju ári, hann er í það minnsta mjög tíður gestur. Haustmánuðirnir eru afskaplega spennandi fyrir fiðrildaáhugamenn flækingar berast til landsins með haustlægðum og á meðal þeirra geta verið tegundir sem hafa ekki fundist áður á Íslandi,“ segir Matthías að lokum

Þess má geta að fiðrildavöktun fer fram á Tumastöðum í Fljótshlíð, Rauðafelli og Skógum undir Eyjafjöllum. Fiðrildavöktun er langtímaverkefni hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur staðið frá árinu 1995. Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um fiðrildafánu landsins sem eru undir áhrifum af breyttu veðurfari vegna hlýnunar, breytinga á gróðurfari og náttúruhamförum eins og eldgosi.

Áhugasamir geta fylgst með verkefninu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

 

Fyrri greinÞjótandi leggur rafstreng á Kili
Næsta greinÖlfusárbrú lokuð í nótt