Algjör forsenda að ríkið klári stefnumörkun áður en lengra er haldið

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir engar forsendur til þess að verkefnastjórn rammaáætlunar fjalli um virkjanakosti í sveitarfélaginu án þess að formlega hafi verið fjallað um verkefnið í sveitarstjórn.

Í samráðsgátt stjórnvalda eru nú í fyrra umsagnarferli drög að tillögum verkefnisstjórnunar 5. áfanga rammaáætlunar sem varðar flokkun tíu vindorkuverkefna. Eitt af þeim verkefnum er Hrútmúlavirkjun, sem er á jörðinni Skáldabúðum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

„Eins og fram kemur í umfjöllun verkefnastjórnunar hefur verkefnið mætt töluverðri andstöðu í nærsamfélaginu, enda hefur það fengið litla kynningu og umfjöllun. Hrútmúlavirkjun myndi hafa veruleg neikvæð sjónræn áhrif, bæði í Skeiða- og Gnúpverjahreppi en einnig í nærliggjandi sveitarfélögum eins og Hrunamannahreppi þar sem engin kynning hefur átt sér stað á virkjanakostinum,“ segir í bókun sveitarstjórnar og því er bætt við að síðasta ríkisstjórn hafi ekki markað neina stefnu um staðarval né eignarhald og það hafi orsakað mikla reiði í nærsamfélögum mögulegra vindorkuvera um land allt.

„Það er algjör forsenda að ríkisstjórnin klári stefnumörkun í staðarvali og eignarhaldi, ásamt því að klára tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga áður en lengra verður haldið,“ segir ennfremur í bókuninni. Haraldi Þór Jónssyni, oddvita, var falið að skila umsögn sveitarstjórnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Gunnar vék af fundi
Gunnar Örn Marteinsson vék af fundi við afgreiðslu málsins en lagði fyrst fram bókun þar sem hann sagði nauðsynlegt að marka skýra stefnu um hvar á landinu komi til greina að reka vindorkuver, áður en teknar verða frekari ákvarðanir.

Hann sagði afstöðu sína til Hrútmúlavirkjunar hafa legið ljósa fyrir áður en hann var kosinn í sveitarstjórn og ljóst að ef komi til þess að hún verði reist þá muni það þýða verðfall eigna í nágrenninu og neikvæð áhrif á frekari möguleika til uppbyggingar í ferðaþjónustu á svæðinu. Gunnar býr í 4-5 km fjarlægð frá Skáldabúðum. Hann telur sig ekki vanhæfan til að fjalla um málið á þessu stigi en taldi rétt að víkja af fundi við afgreiðslu málsins svo ekki verði farið að efast um umfjöllun sveitarstjórnar.

Fyrri grein„Finnum fyrir svo miklum stuðningi og peppi úr öllum áttum“
Næsta greinHalla Þuríður dúxaði í FSu