Alls var 125 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í júlí síðastliðnum. Þar af voru 26 samningar um eignir í fjölbýli, 71 samningur um eignir í sérbýli og 28 samningar um annars konar eignir.
Heildarveltan var rúmlega 3,9 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 31,4 milljón króna. Aldrei hefur önnur eins heildarvelta sést í júlímánuði en í fyrra var hún 2,6 milljarðar og árið áður 2,7 milljarðar í júlí.
Af þessum 125 voru 75 samningar um eignir í Árborg, Hveragerði og Þorlákshöfn. Þar af voru 15 samningar um eignir í fjölbýli, 54 samningar um eignir í sérbýli og 6 samningar um annars konar eignir.
Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 2,7 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 35,7 milljónir króna. Sömu sögu er að segja í Árborg, aldrei hafa aðrar eins veltutölur sést í júlí, en í fyrra var veltan 1,2 milljarðar og árið 2017 1,5 milljarðar króna í júlí.