Algjör sprenging í sölu á hlaupaskóm

Birna Björnsdóttir, verslunarstjóri í Sportbæ á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hjá versluninni Sportbæ á Selfossi hefur verið að vitlaust að gera síðan kórónuveirufaraldurinn byrjaði. Fyrst seldist upp allur heimaæfingabúnaður og nú rjúka út útivistabúnaður og hlaupaskór.

„Salan á hlaupaskóm hefur gengið vonum framar í vor og í byrjun sumars. Það er mikil aukning frá því í fyrra, við erum til dæmis að fá auka sendingu af hlaupaskóm núna í júní til þess að anna eftirspurn. Í fyrra vorum við að bjóða uppá 3-5 týpur af hlaupaskóm en í ár erum við að bjóða uppá töluvert meira úrval þar sem sala og eftirspurnin hefur aukist mikið,“ segir Birna Björnsdóttir, verslunarstjóri í Sportbæ, í samtali við sunnlenska.is.

„Það sem ég held að skýri þessa miklu aukningu er að í kjölfar COVID-19 þá lokuðu allar líkamsræktarstöðvar og fólk varð að finna aðrar leiðir til að stunda líkamsrækt. Það byrjaði auðvitað á því að öll lóð og tæki til heimaþjálfunar seldust upp hjá okkur og í flest öllum íþróttavöruverslunum. Svo færðu margir sig yfir í útivist, göngur og hlaup og þar af leiðandi varð sprenging í sölu á útivistarfatnaði, gönguskóm og hlaupaskóm,“ segir Birna.

Ákváðu að taka áhættuna að panta stóra sendingu
Birna segir þessi mikla aukning hafi komið þeim á óvart þó að þau geri alltaf ráð fyrir aukningu í sölu. „Við vorum með mikið úrval og meira magn en áður af hlaupaskóm fyrir sumarið en það seldist allt upp í vor. En við ákváðum þegar við sáum þessa miklu eftirspurn að taka áhættuna að panta eina stóra sendingu sem var einmitt að lenda hjá okkur núna um miðjan júní. Ég er að sjá það strax á fyrstu viku að það var frábær ákvörðun hjá okkur.“

Það virðist ekki skipta öllu máli hvaða merki hlaupaskórnir eru – þeir rjúka allir út með hraði. „Ég held að það sé óhætt að segja að allar týpur eru vinsælar núna. Við erum með frábært úrval af hlaupaskóm frá Brooks og Nike og er það mjög misjafnt eftir þörfum hvers og eins hvaða skór verða fyrir valinu,“ segir Birna.

Gömlu hlaupaskórnir ekki líklegri til stórræða
Birna segir að góðir skór séu lykilatriði í hlaupi. „Góð dempun og stuðningur til þess að koma í veg fyrir meiðsli og auðvitað til þess að gera hlaupin eins skemmtilega upplifun og hægt er. Það geta flestir byrjað að ganga eða hlaupa sem viljann hafa til þess með réttu skónum. Það að taka fram gömlu skóna og ætla sér stóra hluti er alls ekki leiðin þar sem líftími hlaupaskóa er sirka 600-1000 km og líklegt að þeir hafi misst alla eiginleika til þess að þjóna sínum tilgangi lengur.“

„Svo mæli ég eindregið með því að velja skóna vel, það sem hentar einum er alls ekki víst að henti öðrum. Við erum með margar týpur af hlaupaskóm og bjóðum uppá faglega ráðgjöf við val á þeim skóm sem henta hverjum og einum,“ segir Birna.

Aukin vitund að versla í heimabyggð
„Mig langar að koma fram þakklæti til íbúa á svæðinu fyrir aukna vitund um að versla í heimabyggð. Við erum með fjölbreyttar verslanir á svæðinu sem bjóða uppá framúrskarandi vöruúrval og þjónustu. Tryggð heimamanna við verslanir í heimabyggð gerir það kleift að halda uppi samkeppnishæfu verði, vöruúrvali og þjónustu,“ segir Birna að lokum.

Fyrri greinLára ráðin skólastjóri í Reykholti
Næsta greinFlamenco tónleikar á Selfossi