Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna hafa verið opnaðir en einn sá stærsti á Suðurlandi er hjá Björgunarfélagi Árborgar á Selfossi.
„Vöruúrvalið er svipað hjá okkur og áður en vinsælustu vörurnar okkar eru tertukassarnir, þeir eru heitastir,“ sagði Elvar Már Ölversson, stjórnarmaður hjá Björgunarfélagi Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.
„Flugeldasalan er langstærsta fjáröflunin okkar, ef við værum ekki með flugeldana þá væri ekki hægt að halda starfinu úti. Þetta eru mjög mikilvægir dagar fyrir okkur. Gamlársdagur er langstærsti söludagurinn, það er algjör sprengja þá. Við lokum klukkan fjögur á gamlársdag en það er yfirleitt fullt hús hérna hjá okkur framyfir fjögur og ég er ekki að sjá að það breytist neitt núna.“
Skjótum rótum vekur athygli
Meðal nýjunga hjá Landsbjörgu er að bjóða upp á Rótarskot, trjágræðling sem gróðursettur verður á berangri við Þorlákshöfn. Þar mun með tímanum vaxa upp myndarlegur skógur sem þegar hefur hlotið nafnið Áramót. Kaupendur Rótarskotanna fá minjagrip sem staðfestir kaupin en græðlingurinn verður í umsjón Skóræktarfélags Íslands sem sér um gróðursetninguna og uppbyggingu skógarins.
„Fólk er að taka vel í þessa nýjung. Þetta selst vel og margir eru bara að taka þetta, ekki flugeldana, heldur vilja styrkja okkur með þessu móti,“ sagði Elvar að lokum.