Nýlega var lokið við síðasta girðingakaflann í Ásahreppi og eiga nú allar girðingar meðfram vegum í hreppnum að vera fjárheldar.
Að sögn Eydísar Þ. Indriðadóttur, oddvita Ásahrepps, var ákveðið að flýta þessum framkvæmdum sem eru samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Ásahrepps. Hreppurinn kemur með framlag og Vegagerðin endurgreiðir það á 15 árum í gegnum viðhaldsfé.
Að sögn Eydísar var það vilji hreppsnefndar að ljúka þessu, meðal annars vegna þess að umferð hefði aukist um Suðurlandsveg í kjölfar opnunarinnar í Landeyjahöfn.