„Það gengur mjög vel með kúluna, það er sjaldan sem sprotafyrirtæki ganga nákvæmlega eftir áætlun og jafnvel betur,“ segir Tungnamaðurinn Róbert Róbertsson sem rekur ferðamannakúlu í skóginum í Hrosshaga í Biskupstungum.
„Ég hef unnið í tuttugu og tvö ár í sprotaumhverfinu á Íslandi og Bretlandi og ég hef aldrei séð það gerast áður. Það er uppbókað fram í lok apríl og um tvöhundruð manns á biðlista ef það koma afbókanir,“ bætir Róbert við.
Kúlan er upphituð en þar geta ferðamenn notið þess að horfa á stjörnur og norðurljós á kvöldin og nóttunni. Róbert segir það fyrst og fremst vera Bandaríkjamenn, Breta, Þjóðverja og fólk frá Asíu sem vilja komast í kúluna, einmitt mjög margir komi frá Singapúr og Japan. Ein nótt í kúlunni kostar um 25 þúsund krónur.
En hvernig er upplifun fólks í kúlunni? „Upplifunin er oftast „woow” þetta er ótrúlegt, sérstaklega þegar fólk leggst í rúmið og slekkur á lampanum sem er inn í kúlunni og himinn fyrir ofan opnast með allri sinni stjörnu og ljósadýrð. Þannig stendur hún undir nafninu sem einn hótelgestanna bjó til „The 5 million star hotel“ (Fimm milljón stjarna hótel),“ segir Róbert.
Hann segir að það standa til að fjölga kúlunum í Hrosshaga þegar færi gefst til. Frost þarf að fara úr jörðu svo hægt sé að leggja nægilega öfluga rafmagnskapla að staðnum.
„Síðan erum við að leita að samstarfi við fleiri skógarbændur og fyrst um sinn verður það aðallega sunnanlands. Draumsýnin er að hafa þetta hringinn í kringum landið eftir fimm ár,“ segir Róbert.