Allar verslanir Krónunnar Svansvottaðar

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur Svansins, Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar og Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins. Ljósmynd/Rakel Ósk

Nú hafa allar verslanir Krónunnar hlotið Svansvottun. Fyrstu verslanirnar hlutu vottun í lok árs 2019 en nú, ári síðar, er lokamarkmiðinu náð með vottun allrar keðjunnar.

Krónan rekur meðal annars verslanir á Selfossi og Hvolsvelli.

„Eitt þeirra umhverfismarkmiða sem Krónan sétti sér fyrir árið 2020 var að fá Svansvottun fyrir allar verslanir okkar. Þetta er því stórt skref sem varðar þá samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækið leggur  áherslu á og stendur fyrir. Svanvottun er ekki eitthvað sem þú færð bara einu sinni, heldur þarf að halda viðmiðum til að missa hana ekki. Við hjá Krónunni setjum okkur því áframhaldandi markmið á þessu sviði og fögnum þessum áfanga“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar.

Svansvottun er opinbert og vel þekkt umhverfismerki á Norðurlöndunum sem er meðal annars með það markmið að lágmarka umhverfisleg áhrif á neyslu og framleiðslu vara.

Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur Svansins hjá Umhverfisstofnun, segir að í þeim mælanlegu kröfum sem Svanurinn setur fram hafi Krónan í öllum tilfellum staðið sig töluvert betur en mælst var til um. „Til dæmis var sýnilegur góður árangur þegar kom að hlutfalli umhverfisvottaðra og lífrænt vottaðra vara og magn blandaðs úrgangs miðað við veltu,“ segir Birgitta.

Fyrri greinFlestir fylgjandi því að kosið verði um sameiningu
Næsta greinTíu manns í einangrun á Suðurlandi