Í gærkvöldi sinnti lögreglan á Suðurlandi umferðareftirliti úr lofti og naut við það aðstoðar þyrlu Landhelgisgæslunnar. Allir ökumenn sem lögreglan ræddi við reyndust vera til fyrirmyndar.
Farið var um Suðurlandsveg, uppsveitir Rangárvallasýslu og Fjallabak nyrðra. Talsverð umferð var á þjóðvegunum og var kannað ástand á þriðja tug ökumanna sem reyndust allir vera til fyrirmyndar.
Helgin fór vel fram í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Umferðin hefur gengið vel og lítið hefur verið um útköll, nokkrir ökumenn hafa þó verið stöðvaðir vegna hraðaksturs og nokkrir til viðbótar vegna aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Nú framundan er einn annasamasti dagur ársins á þjóðvegum landsins og hvetur lögreglan á Suðurlandi ökumenn til að sýna tillitssemi og aðgát svo að allir komist heilir heim.
Fólk er hvatt til að gefa sér tíma í ferðalagið. Einnig er góð regla að láta líða a.m.k. tólf klukkustundir frá síðasta vínsopa áður en akstur hefst, en í sumum tilfellum lengri tíma ef drykkja hefur verið mikil.
Lögreglan á Suðurlandi mun verða með mikið eftirlit á vegunum í dag og einnig njóta samvinnu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við eftirlitið.
Förum varlega og komum heil heim.