Allir umsækjendur fengu styrk

Menningarnefnd Ölfuss hefur úthlutað styrkjum úr Lista- og menningarsjóði sveitarfélagsins. Fjórir sóttu um og fengu allir styrk.

Umsóknirnar fjórar hljóðuðu upp á 690 þúsund krónur en í sjóðnum voru 285 þúsund krónur.

Ungmennaráð Ölfuss sótti um styrk til að halda ungmennakvöld í desember. Ákveðið var að styrkja verkefnið um 60.000 krónur sem varið verður til að fá aðkeyptan uppistandara svo dagskrá kvöldsins verði sérlega vegleg.

Skarphéðinn Haraldsson sótti um styrk fyrir útgáfu geisladisksins “Syngjum gegnum lífið” sem hann er að vinna að um þessar mundir. Ákveðið var að styrkja útgáfuna um 75.000 krónur, en Skarphéðinn semur bæði ljóð og lög á disknum.

Leikfélag Ölfuss fær 75.000 króna styrk til útgáfu leikskrár, veggspjalda og leikmyndar í tengslum við sýninguna Stútungasögu sem nú er á fjölunum í Versölum, Ráðhúsi Ölfuss.

Að lokum var ákveðið að styrkja glervinnustofuna Hendur í höfn um 75.000 krónur til að niðurgreiða glerlistanámskeið barna og ungmenna sem haldin verða eftir áramót.

Fyrri greinLaugdælir og Hamar áfram
Næsta greinOpnað fyrir hugmyndir íbúa