Með breyttu skipulagi á afurðastöðvum Mjólkursamsölunnar mun öll mjólkurpökkun flytjast á Selfoss og framleiðsla á sýrðum mjólkurvörum verður endurnýjuð á Selfossi.
Mjólkursamsalan ræðst á næstu mánuðum í 1,5 til 2 milljarða króna fjárfestingar og breytingar á skipulagi í stærstu afurðastöðvum sínum. Þetta kemur fram í tilkynningu fyrir MS.
Markmiðið er að ná fram frekari hagræðingu, sem ætlað er að skili sér í vöruverði til neytenda og hráefnisverði til bænda auk þess að skapa nýja möguleika til að flytja út skyr, osta og mysuafurðir, að því er segir í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir að endurnýja framleiðslu á sýrðum mjólkurvörum á Selfossi, færa saman á Selfossi mjólkurpökkun sem hefur verið þar og í Reykjavík.
Mjólkursamsalan sinnir öllum skyrútflutningi frá landinu með framleiðslu frá Selfossi. Með þessum fyrirhuguðu breytingum eykst framleiðslugetan og geymsluþol eykst sem gefur færi á að flytja skyr lengri vegalengdir.
„Mjólkursamsalan hefur á undanförnum árum náð umtalsverðum árangri í hagræðingu og sparnaði“, segir Einar Sigurðsson, forstjóri félagsins í tilkynningu. Kostnaður við söfnun, vinnslu og dreifingu mjólkur og mjólkurafurða hefur verið lækkaður um 2 milljarða króna á ársgrunni.“