Sjö liðsmenn Björgunarfélags Árborgar unnu að því að yfirfara jólaseríurnar á Ölfusárbrú á Selfossi í gærkvöldi. Brúin mun skarta sínu fegursta þegar jólaljósin verða kveikt í Árborg á fimmtudaginn í næstu viku.
„Það eru um það bil þrjátíu ljósaseríur á brúnni og eins og síðustu ár þá förum við upp og skiptum út þeim seríum sem eru skemmdar. Oftast eru þetta þrjár til fimm seríur sem skemmast á hverju ári en við vorum heppin í ár því við þurftum aðeins að skipta út þremur seríum og aðeins ein þeirra var yfir turn,“ sagði Ágúst Ingi Kjartansson, hjá Björgunarfélagi Árborgar, í samtali við sunnlenska.is. Ágúst Ingi hefur séð um þetta verkefni hjá félaginu í hátt í tíu ár.
„Þetta er frekar tímafrekt þar sem við höfum ekki mikið svæði til þess að athafna okkur og það er mjög seinfarið að klifra upp burðarkaplana – og alls ekki fyrir lofthrædda,“ sagði Ágúst Ingi ennfremur og bætti við að vinnan í gær hafi gengið vel fyrir sig.
Myndirnar sem fylgja fréttinni tók Hjörtur Leví Pétursson á Selfossi, og er óhætt að segja að þær séu ekki heldur fyrir lofthrædda!