Allstórt, blautt snjóflóð féll suður af Tröllinu við Veiðivötn, líklega í gær, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.
Brotstálið var sennilega 2 m á hæð og þykktin neðst í tungunni um 3-4 m. Einnig hafa borist fréttir af blautum lausasnjóflóðum á Landmannaafrétt.
„Þessi snjóflóð eru til marks um að leysing sem nú stendur yfir getur leitt til óstöðugleika bæði í yfirborði og einnig alldjúpt í snjóþekjunni. Sérstaklega þarf að varast blautan snjó í miklum bratta, en einnig getur verið hætta á allstórum flóðum sem e.t.v. falla þar sem leysingarvatn hripar niður á ís- eða skaralög djúpt í snjónum og veikir snjóþekjuna á ákveðnu dýpi. Hengjur geta einnig hrunið undir þessum kringumstæðum,“ segir í frétt Veðurstofunnar sem hvetur ferðafólk á miðhálendinu til þess að gæta varúðar af þessum sökum.