Fyrir nokkrum mánuðum hættu starfsmenn Hótel Rangár að taka við þjórfé en gestum var þess í stað boðið að láta af hendi peninga sem myndu renna til góðs málefnis.
Framlög gesta hótelsins fyrstu vikur ársins 2016 nema 400 þúsund krónum og var þeim útdeilt í dag til Björgunarfélagsins Dagrenningar á Hvolsvelli og Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu. Báðar sveitirnar fengu 200 þúsund krónur.
„Það hefur aldrei tíðkast hérlendis að gestir veitingahúsa eða þeir sem kaupa aðra þjónustu þurfi að greiða þjórfé, eins og það kallast í útlöndum, en þar er það sums staðar nánast einu launin sem starfsfólkið fær fyrir vinnu sína. Með stórauknum fjölda ferðamanna til Íslands hefur það færst í vöxt að þjórfé sé greitt en við ákváðum það á Hótel Rangá fyrir nokkrum mánuðum að þiggja ekki þjórfé,“ segir Friðrik Pálsson, hótelstjóri.
„Við segjum gestunum hins vegar að við vitum að mörgum þyki ánægjulegt að leggja fram einhverja fjármuni sem virðingarvott fyrir góða þjónustu. Við bjóðum þeim að leggja fram peninga sem renna til góðra málefna og til að byrja með til björgunarsveita á svæðinu. Þetta hefur vakið afskaplega jákvæð viðbrögð meðal gesta okkar,“ segir Friðrik ennfremur.
Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Ingibjörg Jóhannesdóttir móttökudama, Sylvia Rossel móttökudama, Ewa Tyl Yfirþerna, Kolbrún Jónsdóttir móttökustjóri Hótel Rangá, Helga Guðrún Lárusdóttir formaður starfsmannafélagsins, Bragi Þór Hansson kokkur, Magnús Þór Einarsson, formaður Dagrenningar á Hvolsvelli og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu og Friðrik Pálsson hótelstjóri.