Hvítá flæðir enn yfir bakka sína á milli Brúnastaða og Austurkots í Flóahreppi eftir að staðbundin ísstífla myndaðist í ánni norðan við Austurkot síðdegis í gær.
Austurkot er umflotið vatni og afleggjarinn heim að bænum er ófær. Tún og móar austan við Oddgeirshólaveg eru á floti, alveg niður að Stóru-Reykjum. Þá flæðir vatn yfir Oddgeirshólaveg fyrir neðan Oddgeirshóla og vestan við bæinn þar sem hún leitar að sínum rétta farvegi aftur.
Lögreglan á Suðurlandi er í stöðugu sambandi við íbúa á svæðinu og fylgist með ástandinu. Fólki og búfénaði stafar ekki hætta af flóðinu og lítil hætta er á tjóni á öðru en girðingum.
Ekki er fólksbílafært heim að Oddgeirshólum og Austurkoti eins og stendur og þeir sem eiga leið þangað ættu að setja sig í samband við íbúa eða lögreglu til þess að fá aðstoð við að meta aðstæður.

